Fyrstu vikuna í desember 2012 fórum kennarar úr Akurskóla í heimsókn til Þýskalands vegna þátttöku okkar í Comeniusar-verkefni.
Skólinn sem við heimsóttum er lítill skóli rétt fyrir utan Frankfurt. Hann er í litlum bæ þar sem heitir Berkersheimer. Þar eru nemendur í 1.- 4. bekk. Nemendafjöldinn er rétt tæplega 100. Heimasíðu skólans má finna hér.
Ferðasagan:Þegar ferðalangarnir voru búnir að koma sér fyrir á hótelinu var sameiginlegur kvöldverður þar sem tækifæri gafst til að kynnast hinum þátttakendunum og var aðalumræðuefnið að sjálfsögðu “skólamál”.
Daginn eftir komuna til Þýskalands fór allur hópurinn í þýska skólann og hvert og eitt land var með stutta kynningu fyrir nemendur á sínu landi, menningu og ýmsum hefðum. Eitt af fjölmörgum sameiginlegum verkefnum skólanna hafði verið að endurnýta hluti til að búa til jólaskraut. Jólaskrautið átti að hengja á jólatré allra skólanna og í lok dagsins skiptust skólarnir á jólaskrauti. Nemendur þýska skólans hengdu jólaskraut á sitt jólatré við sameiginlega athöfn á skólalóðinni. Það var gaman að sjá hvað margir höfðu verið hugmyndaríkir við að endurnýta og vinna það sem dags daglega fer í ruslatunnuna. Þegar þessu lauk sungu nemendur skólans fyrir okkur lagið Ó jólatré á öllum 6 tungumálunum.
Næstu dagar fóru að miklu leyti í að funda, skipuleggja og ákveða næstu sameiginlegu verkefni, kanna hvort einhver vandamál hefðu komið upp varðandi framkvæmd á fyrri verkefnum og hvort við sæjum fram á einhverjar hindranir á þeim verkefnum sem búið var að ákveða. Nokkur tími fór einnig í að ákveða tímasetningar á næstu heimsóknum þar sem skólarnir reyndu eftir fremsta megni að nýta frídaga nemenda til ferðalaganna.
Þjóðverjarnir lögðu sig fram við að kynna menningu og hefðir sem skapast hafa í desembermánuði. Við snæddum mismunandi pylsur sem hefð er fyrir að hafa á boðstólum í jólamánuðinum og á mörgum heimilum eru pylsur hafðar í jólamatinn. Farið var með okkur á jólamarkað, jólatónleika og við heimsóttum Goethe-safnið, en Johann Wolfgang von Goethe var þýskur rithöfundur, ljóðskáld, vísindamaður og heimspekingur sem skrifaði m.a. leikritið Fást sem margir Íslendingar kannast við. Eins og Þjóðverjum er einum lagið var heimsókn okkar vel skipulögð og séð til þess að tíminn nýttist vel og kunnum við þeim góðar þakkir fyrir.
Kveðja,
Erna Ósk og Ragna