Símenntunaráætlun

Samkvæmt 12. grein grunnskólalaga frá 2008 á hver skóli að frumkvæði skólastjóra að móta áætlun til ákveðins tíma um hvernig símenntun starfsfólks skólans skuli hagað svo að hún sé í sem bestu samræmi við áherslur skólans, sveitarfélagsins og aðalnámskrár. Kennarar og skólastjórar grunnskóla eiga kost á reglulegri símenntun í þeim tilgangi að efla starfshæfni sína en símenntun starfsmanna telst öll formleg fræðsla eins og nám, námskeið, fræðsluerindi og fræðslufundir. Einnig telst óformleg fræðsla eins og vettvangsferðir, handleiðsla, kynningar á kennarafundum, heimsóknir í kennslustundir hjá samkennurum og skipulagðir leshringir til símenntunar.

Ákvörðun um námskeið eða fræðslufundi Akurskóla byggir á stefnu skólans, áherslum hans og Menntastefnu Reykjanesbæjar. Starfsmenn gera skólastjóra grein fyrir þeim símenntunarþáttum sem þeir hafa áhuga á að sinna til að halda sér við í starfi og bæta þekkingu sína. Skólastjóri greinir starfsmanni frá þeim markmiðum sem hann vill að starfsmaðurinn nái.

Gert er ráð fyrir að símenntunaráætlunin sé ávallt í endurskoðun og geti breyst eftir aðstæðum, tækifærum og verkefnum hverju sinni. Starfsmenn eru hvattir til þátttöku í fræðslu og námskeiðum. Starfsmenn skrá sjálfir menntun sína á þar til gert eyðublað og skila til skólastjóra að vori. Farið er yfir símenntunaráætlunina með starfsfólki í janúar og að hausti.

Samkvæmt símenntunaráætlun skóla ber starfsmönnum að sækja þau námskeið sem þeim er ætlað að fara á enda sé hún gerð samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Endanleg ákvörðun símenntunar er í höndum skólastjóra.

Símenntun kennara og starfsfólks fer fram með ýmsu móti jafnt og þétt yfir skólaárið. Akurskóli setur fram áætlun og fræðslu sem kennarar og/eða allir starfsmenn sækja. Sú fræðsla einkennist oft af þeim áherslum skólastarfsins og þeim markmiðum sem sett eru fram til að bæta annað hvort námsárangur skólans, líðan nemenda, líðan starfsfólk o.s.frv.

Símenntun fer fram á misjafnan hátt; annars vegar formlega þar sem námskeið, framhaldsnám og/eða endurmenntunarnámskeið eru sótt. Hins vegar óformlega þar sem starfsfólk fer á ráðstefnur, málþing, fræðslu og kennarafundi, leshringi, lestur fræðirita, notkun fjölmiðla og netmiðla o.s.frv.

Fræðsluskrifstofa skipuleggur einnig formlega og óformlega endurmenntun að hausti og svo tvisvar sinnum í mánuði allt skólárið fyrir kennara og almenna starfsmenn. Ýmist er fyrirkomulagið að kennarar skrá sig á námskeið/fræðslu sem þeir hafa áhuga á og svo eru samráðsfundir þar sem kennarar af sama stigi, sömu námsgrein o.s.frv. hittast og fara yfir málin.

Mikilvægt er að hver starfsmaður skrái hjá sér þá endurmenntun sem hann stundar á þar til gert eyðublað.

Símenntunaráætlun skólans má sjá í starfsáætlun skólans. 

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla