Spánn
Miðvikudagsmorguninn 13. mars 2013 lögðum við Helena Rut og ég (Sigurbjörg Ásdís) eldsnemma af stað uppí Leifsstöð og lá leiðin til Spánar, nánar tiltekið til Quintanar del Rey sem er lítill bær á milli Madrid og Alicante. Við millilentum í London um hádegið og lögðum svo aftur af stað um kl. 17:00 til Madrid og lentum þar um kl. 20:35. Okkur til mikillar gleði biðu þar eftir okkur hópur af Pólverjum, kennarar og nemendur á sömu leið og við og fengum við að nýta sömu rútu og þau og tók það okkur þrjár klukkustundir að komast á áfangastað á hótelið í Tarazona de la Mancha. Eftir ýmsar pælingar og ráðagerðir voru það þreyttir ferðalangar sem lögðust til svefns í ísköldu hjónarúmi á Spáni. Eftir á að hyggja hefðum við sennilega aldreit ratað sjálfar eða komið okkur á þennan stað í myrkrinu,við erum enn þakklátar Pólverjunum að bíða eftir okkur.
Fimmtudaginn 14. mars vorum vorum við sótt á hótelið á einkabílum og farið með okkur í skólann og okkur sýndur hann. Eftir það var Comeníusfundur og klukkan 11:00 var kaffipása sem reyndar stóð yfir í klukkustund og var mikið spjallað og hlegið og við fengum að smakka spænskt brauð sem er borðað til hátíðarbrigða. Síðan var komið að stóru stundinni, nú áttum við að vera með kynningu á skólanum okkar og landi í íþróttasalnum ásamt öllum hinum gestunum og nemendur skólans og kennarar voru áhorfendur. Það gekk ágætlega, hljóðvist salsins var reyndar slæm og þolinmæði nemenda á þrotum, sem var kannski ekki skrýtið, því þau heyrðu illa og skildu kannski ekki heldur mikið af því sem var sagt. En eftir að hvert land var búið að kynna sitt land dansaði hópur nemenda þjóðdans frá viðkomandi landi, flott gert hjá þeim. Að þessu loknu komu nemendur með 6 blómapotta og var málaður fáni hvers lands á þá og í þá voru sett fræ frá hverju landi. Um klukkan þrjú var farið með okkur á vínekru þar sem lífræn ræktun á víni fer fram og okkur boðið til hádegisverðar og vínsmökkunar og þarna vorum við til klukkan 18:00 að borða, smakka, spjalla og skoða vínekruna og þegar við fórum vorum við leyst út með gjöfum. Þá var farið með okkur að skoða svepparæktun sem er í svipuðum stíl og á Flúðum og auðvitað vorum við leyst út með gjöfum, svepparéttum og sveppum. Þá var komið að því að borða kvöldmat og borða aðeins meira. Úff
Föstudaginn 15. mars vorum við aftur sótt á hótelið, alltaf á einkabílum og farið með okkur í Menningarhús samfélagsins á tónleika hjá Tónlistarskólanum og var þemað kvikmyndatónlist, flott hjá krökkunum. Þaðan gengum við svo í skólann ásamt yngstu nemendum þ.e. 5 ára börnunum. Þegar þangað kom var Comeníusarfundur og að honum loknum var spænskur hádegisverður á bókasafni skólans, þar sem kennarar og starfsfólk skólans komu með hina ýmsu rétti til að leyfa okkur að smakka og vín og bjór auðvitað líka. Eftir þessa rosalegu máltíð fóru allir út að mála og skreyta veggi á skólalóðinni og var mikil gleði í gangi og allir lögðu sitt að mörkum. Um klukkan 14:30 var farið af stað með okkur í ferð til Alarcón sem er lítll miðaldabær með kastala og kirkjum og alveg einstaklega fallegur, þar fengum við okkur kaffi í kastalanum, sem er búið að breyta í hótel og einhverjir tóku þá ákvörðun að eyða hveitibrauðsdögunum sínum þarnaþegar þeir það kæmi að því að þeir giftu sig. Kvöldmatur var svo borðaður í Quintanar del Rey í heimahúsi alveg einstök stemning.(Maginn orðinn svolítið skrítinn...)
Laugardaginn 16. mars sótti rúta okkur og nú vorum við að fara í ferð til Madrid og þar var farið með okkur í skoðunarferð um borgina og seinnipartinn áttum við sjálfar til að kíkja í búðir eða söfn einhverjir. hittust svo seinna um kvöldið til að borða saman, en þar sem við Helena þurftum að vakna klukkan þrjú um nóttina til að komast á flugvöllinn ákváðum við að sleppa því og reyna ná smá svefni.
Sunnudaginn 17. mars voru það syfjaðar gellur sem skráðu sig í flug þarna um nóttina og lögðu af stað til London og þar lentum við á Heathrow upp úr klukkan 8:00 um morguninn og þar sem við áttum ekki flug til Íslands fyrr en um klukkan 20:30 um kvöldið og þá frá Gatwick ákváðum við að koma við á aðalgötu London svona á leiðinni, sem við og gerðum. Eftir mikið brambolt með töskur fullar af víni, matarolíu og ýmsum gjöfum frá gestgjöfum okkar á Spáni um neðanjaarðarlestarkerfið í London þá komumst við nokkuð tímanlega á Gatwick og þá var að vigta töskurnar fyrir WOW. Þegar því púsluspili lauk og við sloppnar frá yfirvigt var lagt af stað til Íslands og þar lentum við um klukkan 23:30 og mættum svo hressar og kátar allavega kátar í vinnu morguninn eftir, kannski smá þreyttar eftir ævintýralega ferð.
Sigurbjörg Ásdís (Dísa)
Helena Rut
Væntanlegt
Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.