Pólland
Ferð til Póllands á vegum Comeniusar í maí 2013
Ferðinni var heitið til Varsjá í Póllandi og lentum við þar eftir millilendingu í Kaupmannahöfn þann 20. maí 2013. Við vorum fullar eftirvæntingar að hitta og heimsækja pólsku Comeniusarvini okkar og fá að sjá og skoða pólskan grunnskóla. Eiginmaður skólastjórans beið okkar á flugvellinum og keyrði okkur á lítið hótel í útjaðri Varsjá í hverfi sem kallast Stare Babice. Þriðjudaginn 21. maí nýttum við stöllur til að skoða okkur um í höfuðborginni en gestirnir frá Spáni, Frakklandi, Finnlandi og Þýskalandi komu sumir þann dag en aðrir komu 22. maí.
Þann 22. maí voru allir komnir á áfangastað og saman héldum við til kvöldverðar í Henryk Sienkiewicz Primary School í Stare Babice. Starfsfólk skólans tók virkilega vel á móti okkur og áttum við ánægjulega stund saman. Sungum, hlógum og ræddum saman á hinum ýmsu tungumálum. Daginn eftir var skundað aftur í skólann og þar kynnti skólastjórinn skólastarfið fyrir okkur með stolti en skólinn er eftirsóttur og færri komast í hann en vilja. Eftir kynninguna héldu Comeniusargestirnir stutta kynningu á landi sínu og þjóð fyrir hóp nemenda. Gjafir voru færðar skólanum og nemendur fengu m.a. að smakka á íslensku sælgæti. Rétt fyrir hádegi var farið yfir í leikskólann sem er í sömu byggingu og skólinn og voru leikskólabörnin með dans- og söngatriði fyrir okkur, fengu þau okkur með sér í leiki, glens og gleði.
Hluti ferðarinnar var notaður í skoðunarferðir um borgina, við gengum um gamla hluta borgarinnar og fórum m.a. í Willanóv höllina.
Síðasta daginn var farið með rútu í nýtt glæsilegt vísindasafn, þar gengum við inn í heim vísindanna í glæsilega útfærðu safni þar sem gestir fá að gera tilraunir og prófa sjálfir á eigin skinni hinar ýmsu uppfinningar.
Ferðin gekk í alla staði vel og voru Pólverjarnir höfðingjar heim að sækja. Starfsmenn stóðu í ströngu við að gera ferð okkar sem ánægjulegasta og lögðu mikið á sig til að allt gengi upp. Lokakvöldið var sérstaklega eftirminnilegt, þá héldum við ásamt starfsmönnum skólans út í skóg og grilluðum pylsur á spjóti og sungum saman á fjölmörgum tungumálum.
Comeniusarkveðja
Bryndís Guðmundsdóttir, Elísabet Kjartansdóttir og Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir
Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.