Skólanámskrá

  • Inngangur
  • Saga skólans
  • Kennslufræðileg sýn
  • Grunnþættir og markmið menntunar
  • Námsmat
  • Mat á skólastarfi
  • Móttökuáætlanir
  • Tengsl við grenndarsamfélagið
  • Framkoma og hegðun
  • Öryggis- og slysavarnir
  • Áfengis- og fíknivarnir
  • Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi
  • Jafnrétti og mannréttindi
  • Umhverfisstefna
  • Áfallaáætlun
  • Viðbrögð vegna hættuástands

Myndir í flísum: Akurskóli, Bjarki Jóhannsson, Svavar Herbertsson og Ozzo photography.

Inngangur

Skólanámskrá er tæki til mótunar skólastarfsins og um leið samningur lærdómssamfélagsins. Í henni er gefin yfirlýsing um hvers konar hugsun og viðhorf skuli einkenna skólastarfið. Í skólanámskrá er gerð grein fyrir þeim gildum sem starf skólans byggist á. Þar eru útfærð þau almennu viðmið sem sett eru í Aðalnámskrá.

Til að skólanámskrá verði sameiginleg þeim sem koma að henni þurfa kennarar, nemendur og foreldrar að eiga hlutdeild í mótun hennar með því að vinna að þeim gildum og markmiðum sem sett eru fram í henni. Stöðugt er verið að þróa skólastarfið í Akurskóla til betri vegar og ávallt miðað að því að nemendur nái hámarksárangri, séu hamingjusamir og heilbrigðir. Skólanámskrá Akurskóla er birt í tveimur ritum, þessu sem hér er og síðan er starfsáætlun skólans sem er í tveimur ritum, starfsáætlun hvers árs og bekkjarnámskrár þar sem gerð er grein fyrir hæfniviðmiðum náms og kennslu.

Markmið grunnskólagöngu nemenda er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi ásamt því að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám.

Akurskóli leitast við að framfylgja Menntastefnu Reykjanesbæjar en meginmarkmið hennar er að skapa öllum börnum og ungmennum í Reykjanesbæ öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líði vel, þau hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra með opnum hug og gleði í hjarta. Menntastefnan byggir á þremur leiðarljósum sem eiga að einkenna allt starf með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu. Leiðarljósin eru: Börnin mikilvægust, Kraftur fjölbreytileikans og Faglegt menntasamfélag. Leiðarljósin varða leiðina að farsæld barna þar sem allir sem koma að menntun og uppeldi eru mikilvægir þátttakendur.

Menntastefnan byggir á fimm megin áherslum sem eiga að ná yfir þá eiginleika og hæfni sem við viljum þroska og efla hjá börnum og ungmennum í leik og starfi. Þeim er ætlað að stuðla að því að börnunum okkar líði vel og þau njóti gæða menntunar til að takast á við áskoranir í nútíð og framtíð.

Nálgast má Menntastefnu Reykjanesbæjar á slóðinni: https://www.reykjanesbaer.is/is/stjornsysla/stefnumotun/stefnur-og-samthykktir/menntastefna-reykjanesbaejar-2021-2030

Saga skólans

Akurskóli er staðsettur í Innri-Njarðvík en nafn skólans er dregið af Akurskóla sem var byggður árið 1891, skólahald stóð þar fram til ársins 1906. Lýsing Kristjáns Sveinssonar höfundar Sögu Njarðvíkur á skólahúsinu sem reist var í samvinnu góðtemplarastúkunnar Djörfungar og hreppsins er svohljóðandi:

„Þetta hús var 6,3 m á lengd og 3,1-3,8 metrar á breidd. Lítill skúr var áfastur við norðausturgafl hússins. Þakið var járnklætt en veggirnir pappalagðir og voru tveir sex rúðu gluggar á suðvesturgaflinum. Var aðalhúsið haft fyrir kennslustofu, en skúrbyggingin fyrir kennarann og kennsluáhöldin. Húsið þótti ekki sem best fallið sem skólahúsnæði, enda var það ekki einangrað og gisið. Það var því kalsasamt og trekkfullt ef eitthvað var að veðri.“ 

Segir sagan að Árni Pálsson kennari hafið oft tekið nemendur heim til sín og kennt þeim þar þegar kalt var í veðri en Árni bjó í Narfakoti og sinnti barnakennslu í Njarðvík frá árinu 1894 og þar til hann andaðist árið 1900.

 

Fyrsta skóflustungan að núverandi Akurskóla var tekin 20. mars 2004. Akurskóli hóf starfsemi haustið 2005 og skólinn var formlega vígður 9. nóvember 2005.

Strax við upphaf undirbúningsvinnunnar kom fram vilji hjá stjórnendum í Reykjanesbæ að byggja á góðri reynslu af hönnun og byggingu Heiðarskóla sem tekinn var í notkun árið 2000. Strax á meðan skólinn var á hönnunarstigi árið 2003 til 2004 komu fram hugmyndir um að skólinn yrði opinn skóli. Stofur í kennsluhúsum voru opnaðar með því að taka niður veggi og voru settir í skólann tveir stórir stigar sem nýtast áttu í kennslu og til hvíldar fyrir nemendur. Annar var í miðrými skólans og hinn á gangi hjá kennslustofum.

Skólinn var byggður í þremur áföngum. Fyrst var kennsluhúsnæði á tveimur hæðum ásamt miðrými, sal og stjórnunarrými tekið í notkun. Haustið 2007 var íþróttahús og sundlaug við skólann tekið í notkun en fyrstu tvö árin var nemendum ekið í íþróttir og sund í íþróttamiðstöðina við Njarðvíkurskóla. Að síðustu var svo kennsluhúsnæði sunnan megin við miðrými tekið í notkun haustið 2008.

Þegar Akurskóli hófst hafði lengi verið beðið eftir skóla í Innri-Njarðvík en börn í hverfinu sóttu áður Njarðvíkurskóla og því var mikil eftirvænting í hverfinu þegar skólinn tók til starfa.

Strax þegar skólinn var vígður var ákveðið að nefna bókasafnið í miðálmunni Thorkellistofu til að heiðra minningu Jóns Þorkelssonar Thorcillius skólameistara í Skálholti. Jón fæddist í Innri-Njarðvík árið 1697. Minnismerki Ríkharðs Jónssonar um Jón sem stendur við kirkjuna í Innri-Njarðvík var afhjúpað 29. maí 1965. Jón var einkabarn vel stæðra foreldra en kynntist fátækt hér í kotunum í Innri-Njarðvík á sínum tíma. Hann lét allar eignir sínar renna til uppeldis og menningar fátækra barna í Kjalanesþingi að honum látnum. Fyrir utan að halda sögunni lifandi með því að láta bókasafnið bera eftirnafn Jóns þá eru gömul bæjarnöfn á kennslurýmunum í skólanum sem minnir á gamla tímann.

Á fyrsta ári skólans, haustið 2005 voru nemendur 85 talsins og 15 starfsmenn. Skólanum var skipt niður í tvö stig, yngra og eldra stig. Á yngra stigi voru þrír nemendahópar í 1. – 3. bekk og á eldra stigi tveir hópar í 4. og 5. bekk. Þá var strax boðið upp á frístundaskóla við skólann, nám í tónlistarskólanum og ein deild frá leikskólanum Holti hafði aðsetur í skólanum fyrstu árin.

Einkunnarorð skólans voru í upphafi: Börn eru gleðigjafar, skapandi og fróðleiksfús. Skólinn lagði strax áherslu einstaklingsmiðað nám, teymisvinnu kennara og útinám og hefur það haldist æ síðan.

Frá upphafi skólans 2005 og fram til haustsins 2013 var samkennsla árganga í skólanum, allra nema í 1. bekk og 10. bekk. Smátt og smátt fjölgaði í skólanum þegar fólk flutti í ört stækkandi hverfi og fleiri árgangar bættust við í skólanum. Haustið 2013 var hætt með samkennslu árganga og hverjum árgangi kennt sem einum hópi.

Akurskóli hefur alla tíð lagt mikla áherslu á teymiskennslu árganga, útinám og umhverfismennt. Skólinn hefur tvisvar sinnum flaggað Grænfánanum, fyrst árið 2012 og síðan árið 2014. Árið 2016 hlaut skólinn viðurkenningar frá Reykjanesbæ sem Fjölskylduvæn stofnun. Árið 2018 fékk svo verkefnið Vinnustundir á unglingastigi Hvatningarverðlaun fræðsluráðs. Árið 2021 hlaut Akurskóli aftur Hvatningarverðlaun fræðsluráðs og þá fyrir Instagram verkefnið Laxdælu í 9. bekk.  

Á 10 ára afmæli skólans árið 2015 var Rauðhöfði, listaverk á skólalóðinni sem nemendur unnu að með myndlistarkennaranum Helgu Láru Haraldsdóttur vígt. Það ár voru 465 nemendur við skólann og 70 starfsmenn. Þá var líka efnt til samkeppni um skólasöng Akurskóla af þessu tilefni. 

Í áranna rás hafa verið gerðar ýmsar breytingar á skólahúsnæðinu til að mæta þörfum nemenda í skólanum. Með því að minnka smíðastofuna um helming fengum við nýja kennslustofu haustið 2014. Á sama tíma var komið fyrir tveimur kennslustofum á skólalóðinni og þriðja bættist við 2015. Rýmum á unglingagangi var lokað og búnar til hefðbundnar kennslustofur árið 2015. Þá voru tvær kennslustofur stúkaðar af sumarið 2017 á yngra stigi til að fá fleiri kennslurými. Sumarið 2019 var annar af stigum skólans tekinn og settur hringstigi í staðinn í miðrými skólans til að nýting á sal yrði betri.

Haustið 2017 var hafinn undirbúningur að byggingu nýs grunnskóla í Innri-Njarðvík. Komið var fyrir þremur kennslustofum við Dalsbraut. Börn í 1. – 3. bekk ofan Urðabrautar sóttu skóla þangað fyrsta árið og í 1. – 4. bekk skólaárið 2018-2019. Útibúið var undir stjórn Akurskóla í tvö skólaár. Heildarnemendafjöldi skólans var þá 550 nemendur og 85 starfsmenn. Haustið 2019 varð útibúið að sérstökum skóla, Stapaskóla og við það fækkaði nemendum Akurskóla og haustið 2020 þegar Stapaskóli var tilbúinn voru nemendur Akurskóla 350 en það ár þjónaði Akurskóla nemendum neðan Urðarbrautar í 1. – 9. bekk en öllum nemendum 10. bekkjar í Innri-Njarðvík. Nemendum hefur svo haldið áfram að fækka og voru 315 haustið 2022 og starfsmenn 66.

Vorið og haustið 2021 unnu nemendur og starfsmenn ný gildi fyrir skólann. Gildin sem urðu fyrir valinu voru Virðing – Gleði – Velgengni. Gildin voru kynnt foreldrum og 13. október kynntum við nýjar táknmyndir fyrir gildi skólans. Táknmyndirnar voru hannaðar af Hildi Hlín Jónsdóttur.

 

Haustið 2021 var stofnað, á vegum fræðsluyfirvalda Reykjanesbæjar, nýtt sértækt námsúrræði við skólann til viðbótar við Ösp í Njarðvíkurskóla og Eik í Holtaskóla. Úrræðið fékk nafnið Lind og upphaflega voru 2 nemendur í úrræðinu en haustið 2022 eru fjórir nemendur skráðir í Lindina. Stefnt er að stækkun Lindar smátt og smátt næstu árin þannig að hún þjóni 10-12 nemendum á hverjum tíma. Kennslufyrirkomulag í Lind er miðað við TEACCH líkanið og þjálfun fer fram með atferlismótun að hluta til.

Nokkur stöðugleiki hefur verið í stjórnun skólans. Aðeins tveir skólastjórar hafa stýrt skólanum. Fyrst Jónína Ágústsdóttir frá stofnun skólans til 2012 og núverandi skólastjóri Sigurbjörg Róbertsdóttir frá hausti 2012. 

Skólastjórar frá upphafi skólans:

2012-                                 Sigurbjörg Róbertsdóttir

2005-2012                          Jónína Ágústsdóttir

 

Aðstoðarskólastjórar frá upphafi skólans:

2019-                                  Þormóður Logi Björnsson

2014-2019                           Gróa Axelsdóttir

2012-2014                           Bryndís Guðmundsdóttir

2011-2012                           Halldóra K. Magnúsdóttir

2008-2011                           Lars Jóhann Imsland

Jan 2008 – mars 2008           Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir

2005 – des 2007                   Dröfn Rafnsdóttir

 

Merki skólans

Merki skólans var hannað af Árna Tryggvasyni og var tekið í notkun árið 2007. Nemendurnir í merkinu eru plöntur sem vaxa upp af fræjum á akri. Mismunandi litur þeirra gefur til kynna að öll erum við ólík og höfum okkar sérstöðu.

Upplýsingar á netinu og netfang

Akurskóli er með heimasíðu sem finna má á www.akurskoli.is. Þar er að finna allar upplýsingar um skólann og fréttir af skólastarfinu.

Einnig uppfærum við „facebook“ síðu skólans reglulega en hana má finna hér: https://www.facebook.com/akurskoli

Netfang skólans er akurskoli@akurskoli.is

Skólasöngur Akurskóla

Í tilefni af 10 ára afmæli skólans árið 2015 var efnt til samkeppni um skólasöng Akurskóla. Guðmundur Hreinsson vann samkeppnina og samdi bæði lag og texta. Lagið má heyra á heimasíðu skólans http://www.akurskoli.is/um-skolann/skolasongur

Skólasöngur Akurskóla

Í Akurskóla er gaman að vera

og lífleg erum við öll.

Allir hafa nóg að gera

þar sannast hvað við erum snjöll.

 

Menntun er okkar máttur

og mótar okkar fyrstu spor.

Í lífi óteljandi þrauta

Þar sem reynir á okkar þor.

 

Við erum börn

í Akurskóla alltaf svo dús.

Við erum skapandi börn

og svo fróðleiksfús.

Kennslufræðileg sýn

Gildi Akurskóla eru leiðarljós skólastarfsins en þau eru virðing, gleði og velgengni sem táknmyndirnar endurspegla. Gildin eiga að endurspeglast í stefnu skólans og öllu hans starfi.

Merki skólans eru nemendur sem eins og plöntur vaxa upp af fræjum á akri. Mismunandi litur þeirra gefur til kynna að öll erum við ólík og höfum okkar sérstöðu.

Í Akurskóla er nemandinn í forgrunni og leitast er við að leita allra leiða til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda. Okkur finnst mikilvægt að allir nemendur hafi jöfn tækifæri til náms en leggjum líka áherslu á teymiskennslu kennara, Uppbyggingarstefnuna, Byrjendalæsi, góðan námsárangur, fjölbreytta kennsluhætti, útikennslu og jákvæð og öflug samskipti við foreldra .

Jöfn tækifæri til náms eru ein af grunnstoðum menntastefnu Reykjanesbæjar. Í Akurskóla er þörfum nemenda mætt úr frá námsstíl, námshæfni og áhuga. Unnið er með sterkar hliðar nemenda og miðað er að því að gera nemendur sjálfstæða í námi með góðri endurgjöf. Við skólann starfa fjölbreyttar starfsstéttir til að mæta nemendum á sem skilvirkastan hátt.

Teymiskennsla kennara er ein af lykilstoðum í námi og kennslu nemenda. Hver árgangur er ein heild með tvo eða fleiri umsjónarkennara sem saman bera ábyrgð á undirbúningi og skipulagi kennslunnar. Kennarar skipta oft með sér verkum þannig að styrkleikar hvers og eins nýtast sem best í kennslu.

Uppbyggingarstefnan er notuð er til að skapa jákvæðan skólabrag og tryggja velferð allra innan skólans. Lögð er áhersla á að byggja upp sjálfsaga og ábyrgð hjá einstaklingum með samræðum um lífsgildi og eigið sjálf. Lögð er áhersla á lífsgildin, ábyrgð og virðingu, og er nemendum kennt að bera ábyrgð á eigin orðum og gjörðum.

Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð í læsi í 1. - 3. bekk. Kennsluaðferðin byggir á því að lestur, ritun, tal og hlustun eru samofnir þættir þar sem merkingarbær viðfangsefni eru megináherslan og unnið er út frá gæðatexta. Áhersla er lögð á fjölbreytni og sveigjanleika í námsaðstæðum barnanna.

Til að stuðla að góðum námsárangri er námsumhverfi hvetjandi og væntingar eru gerðar til nemenda um nám óháð færni þeirra og getu. Allir nemendur fá áskorun og ögrun við hæfi í skólastarfinu.

Fjölbreyttir kennsluhættir og útikennsla eru ríkjandi þættir í skólastarfinu. Kennarar beita fjölbreyttum kennsluaðferðum í öllum kennslustundum og ígrunda starf sitt til að koma til móts við nemendur. Skólinn á útikennslusvæði, Narfakotsseylu, og nýtir það svæði ásamt öðru í nágrenni skólans til útikennslu. Nemendur læra að þekkja náttúruna og umhverfi skólans er nýtt til rannsókna og athugana.

Jákvæð og öflug samskipti við foreldra eru mikilvægur hlekkur í námi barnanna. Við viljum stuðla að faglegri samvinnu við foreldra og góðu upplýsingastreymi. Við skólann starfar öflugt foreldrafélag sem styður við skólann á allan hátt. Einnig er skólaráð skólastjórnendum til ráðgjafar þegar á þarf að halda. Skólinn sendir reglulega pósta á foreldra ásamt því að vera með lifandi heimasíðu og Facebook síðu.

Í Akurskóla ríkir faglegur metnaður og leitast er eftir að skólinn sé eftirsóttur vinnustaður þar sem starfsmenn finna fyrir öryggi og vellíðan og fá tækifæri til að vaxa í starfi.

Grunnþættir og markmið menntunar

Í Akurskóla menntum við börn til að vera fullgildir þegnar í lýðræðissamfélagi. Áhersla er lögð á að styrkja þá sex grunnþætti menntunar sem settir eru fram í Aðalnámskrá grunnskóla sem eru, læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Leitast er við að skapa námssamfélag sem hvetur til náms og vekur nemendur til umhugsunar um gildi þess að vera manneskja. Grunnþættirnir varða starfshætti, inntak og umhverfi náms nemenda. Með þeim er lögð áhersla á starfshætti og skólabrag sem um leið styrkir nemendur til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í síbreytilegu jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Grunnþættirnir eru leiðarljós í almennri menntun og birtist í kennslufræðilegri sýn og bekkjarnámskrám sem og öllu starfi. Kennarar vinna markvisst með grunnþættina með nemendum til að efla skilning þeirra á þeim.

Læsi

Læsi er hæfileikinn til að bera kennsl á, skilja, túlka, skapa og tjá sig með því að nota efni af ýmsu tagi í ólíkum miðlum. Læsi og þjálfun í íslensku eru grunnforsendur náms og skiptir þáttur heimilanna ekki síður máli hvað það varðar en þáttur skólans. Lestrarnám hefst við upphaf skólagöngunnar þar sem aðaláhersla er lögð á lestrartækni sem er undirstaða þess að geta lesið sér til gagns. Starf kennara snýst ekki eingöngu um að miðla þekkingu heldur einnig að liðsinna nemendum við að afla sér þekkingar með allri þeirri tækni sem í boði er. Þjálfun í víðlæsi tekur við af námi í lestrartækni og er hluti af lestrarnáminu alla skólagönguna.

Í Akurskóla er leitast við að þjálfa læsi, það er færni nemenda við að nota margs konar miðla til að skapa merkingu. Unnið er heildstætt með móðurmálið og kennsluaðferðir Byrjendalæsis styrkja þá nálgun. Lögð er áhersla á að efla gagnrýna hugsun, þjálfa virka hlustun og æfa nemendur í munnlegum flutningi á hvers konar efni. Skólinn tekur þátt í Litlu- og Stóru upplestrarkeppninni á hverju ári. Áhersla er lögð á yndislestur í öllum árgöngum og notkun skólabókasafnsins enda gegnir allur lestur miklu hlutverki í þjálfun lesskilnings.

Sjálfbærni

Sjálfbærni snýst um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna, í jafngóðu eða betra ástandi en við tókum við því.

Í Akurskóla er leitast við að efla vitund og skilning nemenda á sjálfbærni, umhverfinu og samfélaginu. Það er meðal annars gert með verkefninu Göngum í skólann, vordögum og þemadögum. Jafnframt er útinám, náms- og vettvangsferðir nýttar til að auka skilning nemenda á þessum þætti. Nemendur flokka pappír frá öðrum úrgangi og stuðlað er að orkusparnaði í skólanum á ýmsan hátt.

Heilbrigði og velferð

Heilbrigði byggir á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Í Akurskóla er leitast við að efla heilbrigði og stuðla að velferð og vellíðan. Þetta er gert með því meðal annars að leggja áherslu á jákvæð samskipti, holla og góða næringu, hreyfingu og kynheilbrigði. Unnið er að forvörnum af ýmsum toga. Starfsfólk skólans hefur að leiðarljósi að styrkja sjálfsmynd nemenda og hjálpa þeim að bera ábyrgð á eigin lífi. Með samvinnu þeirra sem að skólanum koma er leitast við að viðhalda góðum skólabrag.

Í skólanum er verkefnið Göngum í skólann þar sem nemendur eru hvattir til að ganga í skólann. Allir nemendur fá tvo íþróttatíma og einn sundtíma allt árið um kring og einnig er boðið upp á sérkennslu í sundi fyrir þá sem það þurfa. Í skólanum er boðið upp á fjölmörg valfög þar sem stuðlað er að aukinni hreyfingu innan- og utandyra. Þá taka nemendur skólans þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Alltaf er boðið upp á ávexti og grænmeti ásamt grænkerarétti í hádeginu fyrir þá sem eru í áskrift hjá Skólamat. Hjúkrunarfræðingur skólans vinnur eftir verkefninu 6H frá Landlæknisembættinu í gegnum alla skólagönguna. Einnig er unnið að ýmsum forvarnarverkefnum í gegnum lífsleiknikennslu og á vegum ýmissa utanaðkomandi aðila. Kennarar nýta einnig aðferðir Hugarfrelsis þar sem nemendum er kennt að nota einfaldar aðferðir til að auka andlega vellíðan, róa hugann og efla sjálfsmynd sína. Til að efla góðan skólabrag er árlega haldin þemavika þar sem er blöndun er árganga og nemendur vinna saman að verkefnum allt frá 1. bekk og upp í 10. bekk.

Lýðræði og mannréttindi

Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýnni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Uppeldi til lýðræðis felst í því að barn sé og verði virkur þátttakandi í samfélagi. Að vera virkur þátttakandi í samfélagi krefst ákveðinna mannkosta eins og frumkvæðis, sjálfstæðrar dómgreindar, hæfileika til að geta sett sig í spor annarra og geta unnið með öðrum af virðingu og sanngirni.

Í Akurskóla er leitast við að efla gagnrýna hugsun og lögð áhersla á að borin sé virðing fyrir skoðunum annarra. Þessu náum við sem dæmi fram með samræðum, hóp- og paravinnu, bekkjarfundum, þátttöku í skipulagningu félagslífs og lýðræðisfundum. Akurskóli styðst við Uppbyggingarstefnuna þar sem hver einstaklingur hefur möguleika á að snúa til baka eftir mistök sterkari en áður.

Jafnrétti

Jafnrétti felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu með það að leiðarljósi að kenna börnum og unglingum að greina aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.

Í Akurskóla er leitast við að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum og rækta hæfileika sína. Eitt af meginmarkmiðum skólans er að allir hafi jöfn tækifæri til náms. Stefnt er að allir nemendur hafi sem jafnasta og víðtækasta möguleika innan og utan skólans. Allt starf, aðstæður og búnaður skal ætíð taka mið af jafnrétti allra sem að skólanum koma eða nota þjónustu hans.

Sköpun

Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim; búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunaraflið og leika sér með möguleika. Sköpunarferlið sjálft og að horfa á það með gagnrýnum augum skiptir ekki síður máli en afraksturinn. Frumkvæði nemenda fer eftir því hversu mikið rými þeir hafa fengið fyrir skapandi hugsun.

Sköpun er mikilvægur þáttur í námi og starfi. Í Akurskóla er leitast við að flétta sköpun inn í nám nemenda. Leitast er við að veita aðstöðu til að nýta tækni og miðla. Í Akurskóla er unnið með samþættingu námsgreina, samstarf er milli kennara, árganga og aldursstiga og teymiskennsla kennara er ein af aðaláherslum skólans. Verkefni nemenda eru fjölbreytt og kennarar leggja sig fram um að tilgreina hvaða hæfni er verið að meta hverju sinni. Reynt er að gera verkefni nemenda sýnileg. Verkefni geta verið af öllu tagi, nemendur finna hugmyndum sínum farveg með ólíkum efnistökum og aðferðum.

Markmið menntunar

Skólanum er ætlað að gefa nemendum tækifæri til að tileinka sér þekkingu, leikni og hæfni  sem býr þá undir nám að loknum grunnskóla og í raun ævilangt. Í Akurskóla er lögð undirstaða að þátttöku einstaklingsins í lýðræðisþjóðfélagi og þau manngildi ræktuð sem styðja eiga alhliða þroska, efla vitund um íslenska menningu og virðingu fyrir menningu annarra þjóða. Í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er markmið grunnskóla skilgreint í 2. gr. þar segir að hlutverk grunnskóla í samvinnu við heimilin er að stuðla að alhliða þroska nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Skólastarfið leggur grunn að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfar hæfni þeirra til samstarfs við aðra sem og hæfni þeirra til náms. Stuðlað er að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda.

Markmið reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum er meðal annars til að nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öruggir í öllu starfi á vegum skólans. Einnig á reglugerðin að stuðla að ábyrgð nemenda á eigin námi, hegðun og samskiptum með hliðsjón af aldri, þroska og aðstæðum að öðru leyti. Í reglugerðinni er nánar tiltekið hver ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks skóla er og svo nemenda og foreldra/forráðamanna.

Hæfni er skilgreind í grunnþáttum menntunar, lykilhæfni og á hverju greinasviði í Aðalnámskrá grunnskóla. Hæfni er geta nemandans til að nýta þekkingu og leikni sem hann tileinkar sér á skólagöngu sinni. Lykilhæfni, er hæfni, sem ætlað er að stuðla að alhliða þroska nemandans og tengist öllum námssviðum. Lykilhæfni nemenda kemur fram í tjáningu og miðlun, skapandi og gagnrýnni hugsun, sjálfstæði og samvinnu, nýtingu miðla og upplýsinga sem og ábyrgð og mati á eigin námi. Menntagildi lykilhæfni felst í að þroska sjálfsvitund og samskiptahæfni nemenda. Góð lykilhæfni ýtir undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi. Hún eykur líkur á að nemendur nýti sér styrkleika sína til áframhaldandi náms. Þættir lykilhæfni eru jafn mikilvægir og annað nám sem fram fer í skólanum og eru því fléttaðir inn í allar námsgreinar skólans.

Námsmat

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla á megin tilgangur námsmats að veita nemendum tækifæri til að geta aflað sér leiðbeinandi upplýsinga um námið og hvernig nemendum tekst að ná markmiðum námsins. Með námsmati öflum við upplýsinga fyrir nemendur, forráðamenn, kennara, viðtökuskóla og skólayfirvöld um námsgengi sem hafa má að leiðarljósi þegar nemendur skipuleggja nám sitt. Nemendur og forráðamenn eru hvattir til þess að kynna sér bekkjarnámskrár og fræðast þar um hæfniviðmið námsmats.

Í Akurskóla leggjum við áherslu á reglulegt mat og að gefa nemendum og foreldrum góða yfirsýn yfir stöðu nemandans í hverri námsgrein með því að meta hæfniviðmið reglulega yfir skólaárið. Hægt er að fylgjast með framvindu náms á fjölskylduvef Mentors.

Nám í Akurskóla er metið út frá hæfni- og matsviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Við mat á hæfni eru fimm tákn notuð; Framúrskarandi, Hæfni náð, Á góðri leið, Þarfnast þjálfunar og Hæfni ekki náð. Námið er skipulagt út frá hæfniviðmiðunum sem á að kenna og meta samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla og matið fært inn í hæfnikort nemandans á Mentor jafnt og þétt yfir skólaárið. 

Námskrár og námsmat í 1. – 4. bekk

Í 1. - 4. bekk eru nemendur að vinna í námskrám fyrir yngsta stig í öllum fögum. Hæfni er metin með táknunum fimm og við lok skólaárs fá nemendur lokatákn í hverju fagi sem byggir á hæfnikorti þeirra. Í 4. bekk eru nemendur að klára hæfnikortin og þá notast kennarar einnig við matsviðmið Aðalnámskrár þegar nám er metið. Matsviðmiðin eru ólík hæfniviðmiðunum þar sem þau byggja á bókstöfum, A, B+, B, C+, C og D. Við lok 4. bekkjar fá nemendur bókstaf sem lokamat í öllum fögum.

Námskrár og námsmat í 5. – 7. bekk

Í 5. - 7. bekk eru nemendur að vinna í námskrám fyrir miðstig í öllum fögum. Hæfni er metin með táknunum fimm og við lok skólaárs fá nemendur lokatákn í hverju fagi sem byggir á hæfnikorti þeirra. Í 7. bekk eru nemendur að klára hæfnikortin og þá notast kennarar einnig við matsviðmið Aðalnámskrár þegar nám er metið. Matsviðmiðin eru ólík hæfniviðmiðunum þar sem þau byggja á bókstöfum, A, B+, B, C+, C og D. Við lok 7. bekkjar fá nemendur bókstaf sem lokamat í öllum fögum.

Námskrár og námsmat í 8. – 10. bekk

Í 8. - 10. bekk eru nemendur að vinna í námskrám fyrir unglingastig í öllum fögum. Hæfni er metin með táknunum fimm en á unglingastigi við lok hvers skólaárs fá nemendur bókstaf í öllum greinum, nema valgreinum. Í valgreinum fá nemendur Lokið eða Ólokið sem lokamat. Bókstafirnir sem gefnir eru eru; A, B+, B, C+, C og D. Í 8. og 9. bekk er hæfnikort nemandans notað til hliðsjónar þegar lokabókstafur er ákveðinn en í 10. bekk eru nemendur að klára hæfnikort og því notast kennarar einnig við matsviðmið Aðalnámskrár þegar nám er metið. Matsviðmiðin eru ólík hæfniviðmiðunum þar sem þau byggja á bókstöfunum en hæfniviðmiðin á táknunum fimm.

Námsmat er ekki eins hjá öllum námshópum og einstaklingum. Í umsagnarreit á vitnisburðarblaði kemur fram ef um frávik er að ræða. Námsgrein er einnig merkt með stjörnu ef nemandi víkur frá námsmarkmiðum árgangsins og er með aðlagað námsefni og mat. Stjörnumerktur vitnisburður merkir að nemandi nær ekki að tileinka sér námsmarkmið árgangsins og er þar af leiðandi í aðlöguðu námsefni þar sem stuðst er við aðlagaða námskrá.

Á vitnisburðarblaði sem nemendur fá að vori er einnig almenn umsögn kennara. Þar gefst kennara færi á að hrósa og benda á það sem betur má fara er varðar hegðun, sköpun og annað það sem almennt er og ekki sér tengt ákveðnu fagi.

Nemendur safna verkefnum í sýnimöppu (portfolio) á skólagöngu sinni. Miðað er við að á hverju skólaári er valið eitt eða fleiri verkefni til að bæta í möppuna. Mappan er geymd í skólanum þar til skólagöngu lýkur og fá nemendur hana afhenta við útskrift úr skólanum.

Mat á skólastarfi

Mat á skólastarfi er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða mat sem skólar framkvæma sjálfir, innra mat. Hins vegar er um að ræða mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum sveitarfélags, ráðuneytis mennta- og menningarmála eða annarra aðila, ytra mat.

Innra mat á að vera samofið daglegu starfi skóla, efla þekkingu, hæfni og ígrundun á starfinu og auka vitund starfsfólks um ábyrgð. Lýðræðisleg viðbrögð við innra mati þar sem tekið er tillit til sjónarmiða þeirra sem koma að skólastarfinu stuðla að auknum gæðum í starfinu. Niðurstöður skal nýta til umbóta í skólastarfi að höfðu samráði við skólaráð.

Skipulag innra mats í Akurskóla byggir á grunnskólalögum og Aðalnámskrá grunnskóla.

Skólastjórnendur setja upp áætlun um innra mat til fimm ára í senn og leggja fyrir starfsmannafund. Sjálfsmatsáætlun er síðan birt á heimasíðu skólans ásamt umbótaáætlun. Áætlun hvers árs er yfirfarin að hausti og kynnt á starfsmannafundi. Stjórnendur fylgja eftir sjálfsmatsáætlun, aðstoða við fyrirlögn kannana, vinna úr niðurstöðum þeirra og sjá til þess að kynna niðurstöður fyrir starfsmönnum, nemendum, foreldrum og birta þær á heimasíðu.

Samkvæmt grunnskólalögum er markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda,
  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og Aðalnámskrá grunnskóla,
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
  • tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum (lög um grunnskóla nr. 91, 2008).

Nánari útfærslu á mati á skólastarfi má finna í starfsáætlun skólans.

Móttökuáætlanir

Skólabyrjun 1. bekkjar

Foreldrum væntanlegra nemenda er boðið á fund að vori þar sem skólastjórnendur kynna skólastarfið og sýna skólann. Aðra vikuna í ágúst býðst nemendum 1. bekkjar að nýta sér sumarfrístund fram að skólasetningu. Þar fá nemendur tækifæri til að kynnast skólabyggingu, starfsfólki og bekkjarfélögum í ró og næði áður en aðrir nemendur skólans mæta. Formlegt skólastarf hefst svo með foreldradegi fyrsta skóladag þar sem nemandi og foreldrar mæta til viðtals hjá umsjónarkennara. Skólasetning fer fram í upphafi annars dags skóla á sal með athöfn og kennsla samkvæmt stundaskrá í kjölfarið.

Móttaka nemenda eftir að skólastarf er hafið

Skólastjórnandi boðar nemandann og forráðamenn hans í viðtal, sýnir þeim skólahúsnæðið og kynnir þau fyrir teyminu, kennurum og skólaliðum. Nemandinn fær stundaskrá, kynningabækling, skólareglur og aðrar upplýsingar um skólann frá ritara. Starfsmenn skólans ásamt skólahjúkrunarfræðingi fá sendar upplýsingar um að nýr nemandi sé byrjaður í skólanum. Nemandinn hefur skólastarf sem fyrst. Umsjónarkennari aðstoðar nemandann við að tengjast bekkjarfélaga sem aðstoðar hann fyrstu vikuna. Í lok fyrsta skóladags ræðir umsjónarkennari við nemandann um hvernig dagurinn hafi gengið. Umsjónarkennari aflar upplýsinga um nemandann frá foreldrum og/eða þeim skóla sem barnið sótti áður. Umsjónarkennari hefur samband heim til nemanda eftir fyrstu vikuna ef foreldrar hafa ekki haft samband og athugar hvernig gengur. Námsráðgjafi fylgist með nýjum nemendum, líðan og félagslegri stöðu.

Nemandi hættir

Oft og tíðum getur reynst erfitt fyrir nemendur að skipta um skóla, sérstaklega á miðjum vetri. Til að hjálpa nemendum sem flytja úr því umhverfi sem þeir þekkja, frá skólafélögum og vinum, er nauðsynlegt að verja tíma til að kveðja þá á þann hátt að þeir minnist félaganna og skólans á jákvæðan hátt. Skólinn veitir viðtökuskóla nemandans þær upplýsingar sem óskað er eftir. Ef nemandinn er með miklar sérþarfir þá þarf að funda með viðtökuskóla ef hægt er að koma því við, afhenda greiningargögn, námsmat og skilgreina þarfir nemandans. Annars eru greiningargögn og námsmat send viðtökuskóla í ábyrgðarpósti eða í gegnum öruggar gáttir eins og Signet eða GoPro.

 

Móttaka nemenda með sérþarfir

Í reglugerð nr. 585/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskóla 2. gr. teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir.

Þegar nemandi með sérþarfir byrjar í skólanum boðar deildarstjóri stoðþjónustu nemandann og forráðamenn hans í viðtal. Hann sýnir þeim skólahúsnæðið og kynnir þau fyrir kennurum, þroskaþjálfum, skólaliða og öðrum sem koma til með að styðja nemandann. Foreldrum eru kynnt úrræðin sem skólinn býður upp á. Í viðtalinu er farið yfir greiningar, stöðu og þarfir nemandans. Ef þörf er á er boðað til teymisfundar. Á þessum fundi eru lögð drög að einstaklingsmiðuðu námi nemandans ásamt úrræðum sem henta. Yfir veturinn eru reglulegir teymisfundir.

Við Akurskóla sjá deildarstjóri stoðþjónustu, þroska- og iðjuþjálfar í samstarfi við umsjónarkennara um skipulag kennslu fyrir nemendur með sérþarfir. Deildarstjóri sér auk þess um ýmsar greiningar t.d. lesgreiningar og veitir kennurum faglega ráðgjöf eftir þörfum meðal annars við gerð einstaklingsnámsefnis. Kennslan er í höndum hvers kennarateymis með stuðningi sérkennara, þroska- og/eða iðjuþjálfa.

Nemandi getur þarfnast tímabundinnar aðstoðar eða samfellds stuðnings í námi sínu um lengri eða skemmri tíma. Oftast er það vegna sértækra námserfiðleika í lestri/ritun og stærðfræði en einnig getur verið um erfiðleika af félagslegum toga að ræða. Gengið er út frá því að allir fái jöfn eða jafngild tækifæri til náms í sveigjanlegu og margbreytilegu námsumhverfi.

Sérkennslan fer ýmist fram í kennslurými, hliðarstofum, sérgreinastofum eða íþróttahúsi allt eftir því hvað hentar nemendum best, ýmist í hópum eða einstaklingslega. Umsjónar- og sérkennari bera megin ábyrgð á kennslunni og vinna náið með foreldrum og deildarstjóra stoðþjónustu.

Móttaka og kennsla tvítyngdra og erlendra nemenda

Foreldrar/forráðamenn barns sem nýkomið er til landsins sækja um skólavist í þjónustuveri Reykjanesbæjar. Allir nemendur sem eru að flytja til landsins og hafa ekki búið hér áður þurfa að fara í nýbúaskoðun á Landspítala háskólasjúkrahúsi áður en skólaganga hefst. Eftir það getur nemandi komið í fyrstu heimsókn.

Áður en erlent barn hefur skólagöngu í grunnskóla hefur verkefnastjóri íslensku sem annað tungumáls samband við forráðamenn og boðar barnið og foreldra þess á fund þar sem fram fer stöðumat. Á fundinum er stuðst við aðstoð túlks ef þarf og þar skiptast skólinn og foreldrar á mikilvægum upplýsingum er varða skólagöngu barnsins.

Í framhaldi af niðurstöðum stöðumatsins metur kennari í íslensku sem annað tungumál og verkefnastjóri stöðu nemandans í námi. Á grundvelli þessara upplýsinga vinna umsjónarkennari og verkefnastjórinn einstaklingsnámskrá fyrir nemandann. Verkefnastjórinn ákveður tímafjölda í íslensku sem öðru tungumáli fyrir nemandann en sá tímafjöldi miðast við niðurstöður stöðumatsins. Kennari í íslensku sem annað tungumál ákveður í samráði við umsjónarkennara úr hvaða tímum nemandinn fer í íslensku sem annað tungumál. Að öðru leyti fylgir nemandinn sínum árgangi.

Umsjónarkennari hefur heildarsýn yfir það nám sem nemandanum býðst. Hann heldur utan um upplýsingar frá öðrum kennurum og leggur mat á hvað nemandinn er fær um að gera ásamt kennurum í íslensku sem annað tungumál. Umsjónarkennari er ábyrgur fyrir námsframvindu nemandans. Kennari og verkefnastjóri í íslensku sem annað tungumál hafa reglulega samband við alla kennara sem kenna nemandanum og fylgjast með stöðu hans og miðla upplýsingum til umsjónarkennara. Mikilvægt er að allir kennarar sem koma að nemandanum stuðli að góðu sambandi við forráðamenn nemandans til að jákvætt viðhorf ríki á milli þessara aðila.

Tengsl við grenndarsamfélagið

Markvisst er unnið að því að efla tengslin við grenndarsamfélagið. Grenndarsamfélag skólans er annars vegar landfræðilegt, bæði náttúran og manngert umhverfi og hins vegar félagslegt, svo sem fjölskyldur, stofnanir, fyrirtæki, félög og samtök.

Foreldrar

Árangursríkt skólastarf byggir meðal annars á góðu samstarfi við heimilið. Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með námi barna sinna og eru ætíð velkomnir í skólann. Kennslukynningar eru að hausti þar sem starfsfólk kynnir sig og námsmarkmið vetrarins. Þarna er vettvangur fyrir foreldra og starfsfólk til að hittast og styrkir það samband þeirra á milli. Gott samstarf er við foreldrafélagið og funda stjórnendur skólans reglulega með stjórn félagsins ásamt því að félagið gefur sumargjöf til skólans og styður við starf skólans á ýmsa vegu. Foreldrafélagið birtir fundargerðir sínar á heimasíðu skólans og er með eigin facebook síðu til að kynna starf sitt.

Samskipti kennara við heimilið um ástundun og námsmat fara að mestu fram í gegnum Mentor. Þar geta foreldrar fylgst með framvindu barna sinna í námi og ástundun þeirra á skilvirkan hátt. Einnig fara samskipti fram í gegnum tölvupóst, heimasíðu skóla og facebooksíðu skólans og hvers árgangs fyrir sig. Þar eru settar inn upplýsingar um viðburði. Flestir árgangar senda heim vikupistil þar sem farið er yfir verkefni vikunnar og sagt frá því sem fram undan er.

Vala er umsóknarkerfi fyrir frístundarheimili Akurskóla, Akurskjól. Vala bíður upp á sérsniðinn umsóknarvef fyrir vetrar- og sumarfrístund. Vala einfaldar umsóknarferli foreldra og gefur starfsfólki Akurskjóls betri yfirsýn yfir skráningar foreldra. Einnig er tekið á móti umsóknum í frístundaakstur í gegnum Völu.

 

Viðburðir á sal

Yfir skólaárið í Akurskóla eru hinir ýmsu viðburðir á sal. Fyrir utan hina hefðbundnu viðburði innan skólans, svo sem söngstund, upplestrarkeppni og árshátíð, þá fáum við til okkar utanaðkomandi gesti sem auðga skólastarfið með nýjum sjónarmiðum. Hinir ýmsu fyrirlesarar koma yfir árið með fræðslu til nemendur okkar. Einnig höfum við fengið rithöfunda í heimsókn sem lesa uppúr bókum sínum fyrir nemendur. Við nýtum styrkleika fólks úr grenndarsamfélaginu meðal annars til að dæma í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk.

 

Vettvangsferðir

Í Akurskóla er lögð áhersla á að nýta umhverfi skólans. Farið er í vettvangsferðir um Innri-Njarðvík eða farið í strætóferð. Útikennslusvæði er í lítilli vík sem kallast Narfakotsseyla þar sem er eldstæði og lítið skýli. Markmið útikennslunnar er að nemendur kynnist sínu nánasta umhverfi og læri að bera virðingu fyrir náttúrunni.

Vettvangsferðir eru einnig mikilvægur þáttur í starfi frístundskólans. Vettvangsferðir eru hugsaðar sem uppbrot frá hefðbundni dagskrá. Þar er farið út af skólalóðinni og heimsóttir spennandi staðir í nærumhverfi skólans.

Nemendur fara að vori í ferðir með sínum árgangi. 1. bekkur fer í sveitaferð sem er tengd þeim verkefnum sem unnin hafa verið á skólaárinu. Aðrir árgangar fara annað hvort í skemmtilega ferð innan bæjar eða fara með rútu út fyrir bæjarmörkin.

Nemendur í 9. bekk fara á ungmennabúðir á Laugarvatni í 5 daga, nemendur 7. bekkjar fara í skólabúðir á Úlfljótsvatni í þrjá daga og 10. bekkur fer að vori í útskriftarferð að Bakkaflöt í Skagafirði.

 

Byrjendalæsis smiðjur

Akurskóli er leggur áherslu á lestrarkennsluaðferðina byrjendalæsi. Allir kennarar á yngsta stigi fara í gegnum tveggja ára nám í byrjendalæsi á vegum Háskólans á Akureyri. Námið felur í sér að kennarar fara á fimm rafrænar smiðjur á vegum háskólans á ári og hafa góðan aðgang að ráðgjöfum hjá HA. Samstarfið við HA er ómetanlegt og hafa ráðgjafar þaðan bæði komið og tekið út starf skólans sem og boðið eldri byrjendalæsis kennurum að sitja rafrænu smiðjurnar gjaldfrjálst með því markmiði að efla kennara í aðferðinni.

Einnig erum við í Akurskóla lánssöm að vera í góðu samstarfi við nokkra skóla í Hafnarfirði sem einnig eru að nýta aðferðir byrjendalæsis. Leiðtogar skólanna leggja mikið úr því að breikka sjóndeildarhring sinna kennara með heimsóknum til hvors annars þar sem bæði eiga sér stað góðar samræður og kennarar deila góðum hugmyndun og kennsluefni.

 

Starfsþróun

Á hverju skólaári er sett upp áætlun um starfsþróun og endurmenntun kennara. Fræðslan er miðuð að því að efla starfsmenn og fagmennsku. Skólinn fær þá til sín utan að komandi gesti og fyrirlesara frá öðrum stofnunum, menntasviði Reykjanesbæjar og fyrirtækjum til að halda fyrirlestra sem nýtast í starfinu.

Samstarf við fyrirtæki, atvinnutengt nám

Akurskóli er í samstarfi við ýmis fyrirtæki í nágrenninu í formi atvinnutengds náms. Atvinnutengt nám er ætlað að mæta þörfum nemenda á unglingastigi í grunnskóla sem einhverra hluta vegna líður ekki vel í skólanum. Margar ástæður geta legið þar að baki eins og námsleiði, námsörðugleikar eða erfiðar félagslegar aðstæður sem geta haft áhrif á skólagöngu og námsárangur. Aðalmarkmið vinnustaðanáms er að bæta líðan nemenda, gefa nemendum tækifæri til vinna með styrkleika sína og bæta eigin sjálfsmynd. Reynt er að koma til móts við þarfir nemanda og óskir þegar vinnustaður er valinn auk þess sem reynt er að leita til fyrirtækja í nágrenni við Akurskóla.

 

Starfskynningar

Á þemadögum á vorin skipuleggur námsráðgjafi starfskynningar fyrir nemendur í 10. bekk. Þá velja nemendur tvo til þrjá vinnustaði/stofnanir á Suðurnesjum sem þau hafa áhuga á að kynna sér og námsráðgjafi hefur samband við þá vinnustaði/stofnanir. Langflestir vinnustaðir/stofnanir hafa verið mjög jákvæðir fyrir þessu verkefni og hafa tekið vel á móti nemendum Akurskóla.

Annað hvert ár skipuleggur Þekkingarsetur Suðurnesja starfakynningu fyrir nemendur í 8. og 10. bekk á Suðurnesjum. Á starfamessu koma einstaklingar sem starfa við fjölbreytt störf hjá fyrirtækjum og stofnunum og kynna sitt starf. Þar gefst nemendum tækifæri til að sjá hversu fjölbreytt atvinnulíf er á Suðurnesjum og geta spurt og spjallað við þá sem sinna störfum sem þeim finnst spennandi.

 

Fjörheimar og félagsmiðstöðvar skóla

Í Akurskóla er rekið öflugt nemendaráð sem heilsársval á unglingastigi. Nemendur sjá um skipulag og eru með viðveru á fjölbreyttum viðburðum allt skólaárið. Samráð við aðra skóla er reglulegt og haldin eru böll og viðburðir með öðrum skólum.

Nemendur í Akurskóla taka þátt í starfi ungmennaráðs Fjörheima og þeim stendur til boða heilsársval í Fjörheimum þar sem nemendur fá metið mætingu og þátttöku í klúbbastarfi og innra starfi Fjörheima.

 

Klettur

Björgunarsveitin í Reykjanesbæ hefur haldið út ungmennastarfinu Klettur í fjölmörg ár og nemendum í Akurskóla í 9. og 10. bekk stendur til boða að fá þátttöku metna sem heilsársval. Nemendur hafa nýtt sér þetta árlega og alltaf eru einhverjir sem velja Klett.

 

Íþróttafélög

Akurskóli hefur átt farsælt samstarf við íþróttafélög og deildir í fjölmörg ár. Nemendur á unglingastigi eiga þess kost að nýta æfingar sem og þjálfun á yngri flokkum sem heilsársval. Íþróttafélögin hafa einnig aðgang að skólanum til að kynna starfsemi sína.

 

Félagasamtök

Akurskóli á í góðu samstarfi við hin ýmsu félagasamtök á svæðinu. Slysavarnadeildin Dagbjörg gefur nemendum og starfsfólki endurskinsmerki á hverju ári og Kiwanis á Íslandi gefur nemendum í 1. bekk reiðhjólahjálm hvert vor. Þá hafa hin ýmsu félagasamtök eins og Ungmennafélag Njarðvíkur, Lionsklúbburinn í Njarðvík, Lionsklúbburinn Æsur og Kvenfélagið í Njarðvík gefið bækur sem viðurkenningar fyrir góðan námsárangur á skólaslitum hjá nemendum í 10. bekk. Danska sendiráðið, Eymundsson og Kalka hafa einnig gefið viðurkenningar á skólaslitum.

 

Ljósanótt og söfn

Í byrjun september er Ljósanótt haldin í Reykjanesbæ. Grunnskólar Reykjanesbæjar taka þátt með því að tveir árgangar mæta á setningu hátíðarinnar í Skrúðgarðinum í Keflavík. Einnig heldur Akurskóli litla setningarhátíð fyrir sína nemendur. Þá hittast nemendur úti og flagga fánum Ljósanætur, syngja saman og fagna Ljósanæturhátíðinni. Skólum stendur til boða að heimsækja söfn og skoða skemmtilegar sýningar í tengslum við Ljósanótt og nýta kennarar sér það þessa daga sem og á öðrum tímum.

 

Leikskólar

Akurskóli hefur í mörg ár verið í mjög góðri samvinnu við leikskólana í hverfinu með verkefninu „Brúum bilið“ sem er samstarf grunn- og leikskóla í hverfinu. Elstu nemendur leikskóla koma í heimsóknir í grunnskólann nokkrum sinnum yfir veturinn ásamt leikskólakennurum. Þar taka þeir þátt í bekkjarstarfi, þemaviku, íþróttum og hringekju með 1. bekk. Verkefninu er ætlað að skapa samfellu í námi nemenda sem eru að ljúka leikskólanámi sínu og hefja nám í grunnskóla.

Einnig stendur nemendum á unglingastigi til boða að fara í vali í aðstoð á leikskólann Akur. Þar eru nemendur að sinna leikskólabörnum með starfsmönnum í einskonar starfsnámi.

 

Framhaldsskólar

Nemendur 9. bekkjar fara í heimsókn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á vorönn. Þar kynnast nemendur skólanum og fá fræðslu um hvaða brautir eru í boði í skólanum. Nemendur í 10. bekk fá kynningu frá námsráðgjafa um nám í framhaldsskólum. Þá geta nemendur í 9. og 10. bekk stundað nám í framhaldsáföngum í samstarfi við FS eða aðra framhaldsskóla.

Gerð er tilfærsluáætlun fyrir nemendur sem eru að útskrifast úr 10. bekk og eiga rétt á kennslu og sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir.

 

Tónlistarskólar

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur aðstöðu í Akurskóla fyrir þá nemendur sem stunda nám við skólann og nemendum skólans gefst kostur á að sækja tíma í hljóðfæranámi í skólanum á skólatíma. Allir nemendur í 1. og 2. bekk Akurskóla stunda nám í forskóla tónlistarskólans sem kemur í stað tónmenntatíma í stundatöflu nemenda. Kennarar frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sjá um kennsluna. Nemendur í 8. - 10. bekk sem stunda nám við tónlistarskóla eiga kost á því að fá það metið sem valgrein kjósi þeir það.

 

Háskólar

Á hverju ári taka kennarar Akurskóla á móti kennaranemum í æfingarkennslu og/eða áheyrn. Leiðsögn og þjálfun kennaranemana frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri er mikilvægur þáttur í starfi skólans og er Akurskóli með samning við báðar þessar stofnanir um leiðsögn og þjálfun kennaranema.

Framkoma og hegðun

Skólabragur

Áhersla er lögð á að skapa jákvæðan skólabrag og að góður vinnuandi sé ríkjandi. Mikilvægt er að allir í skólanum stuðli að góðum starfsanda þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigði eru í fyrirrúmi. Við viljum að gagnkvæmt traust, virðing, samábyrgð, tillitssemi og fáguð framkoma sé höfð að leiðarljósi. Námsagi einkennist af því að tillit sé tekið til þarfa nemenda, þroska þeirra og hæfni með áherslu á mannréttindi, jafnrétti, lýðræðisleg vinnubrögð og bann við mismunun af öllu tagi.

Uppbyggingarstefnan

Uppbyggingarstefnan er notuð er til að skapa jákvæðan skólabrag og tryggja velferð allra innan skólans. Lögð er áhersla á að byggja upp sjálfsaga og ábyrgð hjá einstaklingum með samræðum um lífsgildi og eigið sjálf. Lögð er áhersla á lífsgildin, ábyrgð og virðingu, og er nemendum kennt að bera ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Aðalinntak stefnunnar er að hver einstaklingur taki sjálfstæðar og siðferðilegar ákvarðanir um eigin hegðun og beri ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Stefnan ýtir undir sjálfsaga barna og unglinga og eykur sjálfstraust þeirra.

Þegar talað er um Upp­bygg­ingu sjálf­saga er átt við Restituti­on – Self Discipline en höf­und­ur hug­mynda­fræðinn­ar og vinnuaðferða henn­ar er Dia­ne Gossen frá Kan­ada.

Hug­mynda­fræði Gossen snýst um að kenna ein­stak­lingi að byggja upp innri styrk til sjálfsstjórn­ar og sjálf­saga með það að mark­miði að skapa um­hyggju­samt og styðjandi samfélag. Hug­mynd­ir henn­ar byggj­ast meðal annars á sjálf­stjórn­arkenn­ing­um dr. William Glass­ers og þarfa­kenn­ingu hans um grunnþarf­ir manns­ins, heila­rann­sókn­um Erics Jen­sens, auk rann­sókna og skrifa Al­fie Kohn og vinnuaðferða frum­byggja N-Am­er­íku um að einstakling­ur­inn þurfi að fá tæki­færi til að læra af mis­tök­um sín­um (e. Restituti­on).

Aðferðir upp­bygg­ing­ar sjálf­saga nýt­ast jafnt börn­um sem full­orðnum í sam­skipt­um. Þess vegna mót­ar stefn­an já­kvæðan og um­hyggju­sam­an skóla­brag, vinnustaðamenn­ingu og félaga­menn­ingu þar sem viður­kennt er að all­ir geti gert mis­tök. Uppbyggingastefnan aðstoðar nemendur við að bæta úr því sem aflaga fer í samskiptum og að nemendur læri af mistökum sínum með því að gangast við þeim og koma sjálfir auga á leiðir til úrbóta á eigin hegðun.

Í upp­bygg­ing­ar­stefn­unni er talað um fimm grunnþarf­ir, að hver ein­stak­ling­ur þurfi gleði, umhyggju, frelsi, að geta haft áhrif og finna til ör­ygg­is.

Skólareglur og agi

  1. Kurteisi: Við förum ávallt eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks skólans. Við göngum vel um skólann og berum virðingu fyrir einkalífi og eigum annarra.
  2. Heilbrigði: Við hugum að heilsu okkar.
  3. Öryggi: Við stofnum okkur sjálfum eða öðrum ekki í hættu með orðum eða gjörðum.

Kurteisi: Við sinnum náminu af áhuga og samviskusemi og truflum ekki kennslustundir. Við geymum yfirhafnir og skó í skápum og hillum. Við berum sjálf ábyrgð á okkar persónulegu hlutum s.s. farartækjum, fatnaði og símum. Notkun síma er óheimil nema með sérstöku leyfi kennara. Myndatökur nemenda eru óheimilar á skólatíma og á viðburðum á vegum skólans.

Heilbrigði: Við komum með hollt nesti. Öll notkun tóbaks, áfengis, orkudrykkja, rafretta og annarra vímuefna er stranglega bönnuð.

Öryggi: Við dveljum á skólalóðinni á skólatíma en notum ekki hjól, hlaupahjól, vespur eða önnur farartæki á skólalóðinni á skólatíma. Við beitum ekki ógnun, ögrun, hótunum eða ljótum orðum. Andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi er aldrei liðið þ.m.t. einelti. Barefli, vopn eða eldfæri má ekki koma með í skólann.

Öryggis- og slysavarnir

Áætlunum og verkferlum Akurskóla er ætlað að stuðla að alhliða heilbrigði nemenda skólans og undir þennan kafla fellur nær allt tengt velferð nemenda, svo sem líðan, sjálfsmynd, námsárangur, skólasókn, samskipti og öryggi.

Markmið:

  • Að nemendum líði vel í skólanum, þeir öðlist trú á sjálfum sér, finni sig örugga og gangi glaðir til verka.
  • Að nemendur auki við þekkingu sína og færni og komist til aukins þroska.
  • Að nemendur beri virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum einstaklingum og umhverfi sínu.
  • Að allir starfsmenn sýni metnað í starfi og geri kröfur til sín og nemenda sinna.

Áhersla er lögð á að nemendur þjálfist í að tjá hugsanir sínar, skoðanir og tilfinningar. Efla skal sjálfsþekkingu nemenda og mikilvægt er að aðstoða þá við að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Samskiptahæfni nemenda er efld og þeim kennt að leysa ágreining. Nemendur eru fræddir um gildismat, ábyrgð, öryggi og gagnkvæma virðingu. Þeir meta sjálfstætt eigin lífsgildi og lífsstíl og læra að standast utanaðkomandi þrýsting.

Öryggis- og slysavarnir

Frímínútur og gæsla

Nemendur 1. - 6. bekkjar borða nesti og fara í frímínútur að morgni fyrir kl. 10:30 en það er í höndum hvers kennarateymis að ákveða það. Kennarar fara með nemendum í útiveru. Nemendur í 7. bekk fara í nesti og útiveru á bilinu 9.30-10.00. Nemendur 8.-10. bekk fara í nesti kl. 9.30-9.50.

Hádegishlé hjá 1.-4. bekk er kl. 11.20-11.40 og fara nemendur í útiveru til kl. 12.00 eftir að hafa lokið við að borða.

Nemendur í 5. og 6. bekk fara í hádegishlé kl. 12.00-12.20 og í frímínútur til kl. 12.40. Nemendur í 7.-10. bekk fara í mat kl. 11.50 til 12.20. Starfsfólk skóla sinnir gæslu í frímínútum og í hádegishléi bæði inni og úti.

Nemendur í 5. – 7. bekk fara í útiveru eftir að þeir hafa lokið við að borða.

Hádegishlé er hluti af skóladegi nemenda og er þeim skylt að dvelja í skólanum á þeim tíma.

Nemendum er með öllu óheimilt að fara út af skólalóðinni á skólatíma. Nemendur í 8. - 10. bekk þurfa skriflegt leyfi foreldra til þess að yfirgefa skólalóðina í frímínútum eða hádegi. Leyfisblaðið er undirritað einu sinni og er í gildi út skólagöngu nemandans nema það sé afturkallað. Leyfisblaðið er aðgengilegt á heimasíðu skólans eða hjá ritara. 

Hjól og önnur farartæki

Hjól, hjólabretti, línuskautar og rafskutlur eru leyfð til að ferðast til og frá skóla og þá er skylda að nota hjálm samkvæmt lögum. Notkun hvers kyns hjóla er óheimil á skólalóðinni á skólatíma. Ef nemendur koma á línuskautum í skólann þurfa þeir að taka með sér skó.

 

Umgengni

Nemendur hafa hillur fyrir skó í anddyri. Hver nemandi hefur skáp til umráða þar sem hægt er að geyma fatnað eða skóladót.

Nemendur á yngsta stigi hafa snaga fyrir yfirhafnir fyrir utan kennslustofur. Í kennslulok sjá kennarar til þess að nemendur gangi vel frá rýmum.

 

Ábyrgð á persónulegum eigum nemenda

Skólinn tekur ekki ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum nemenda, nema hægt sé að rekja tjón til starfsfólks eða vanbúnaðar skólans. Foreldrar eru beðnir að sjá til þess að nemendur komi ekki með peninga eða önnur verðmæti í skólann að óþörfu.

 

Tryggingar

Öll skólabörn eru tryggð hjá Tryggingamiðstöðinni (TM) hvort sem það eru líf-, örorku eða slysatryggingar á meðan þau eru á ábyrgð skólans á skólatíma svo sem á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans. Gera skal skýrslu um öll óhöpp sem koma upp og senda TM til varðveislu. Foreldrum er bent á að reikningar sem verða til vegna áverka/slysa sem börn verða fyrir skulu sendir TM sem sér um að greiða viðkomandi sjúkrakostnað enda er skýrslan í þeirra höndum.

 

Skólalóð

Skólalóð Akurskóla er með fjölbreyttum leiktækjum. Á henni er upphitaður gervigrasvöllur með fótboltamörkum og körfuboltavellir. Leikvellir skólans eru upplýstir sem og skólalóð.

 

Húsnæði skólans

Í skólahúsinu eru fjögur opin rými fyrir yngri nemendur í vesturenda skólans. Í austurenda byggingarinnar eru níu hefðbundnar skólastofur fyrir eldri nemendur. Á skólalóð eru einnig þrjár kennslustofur sem tengdar eru saman með tengibyggingum. Hefð er fyrir að einn árgangur stundi nám sitt í þessum kennslustofum. Á neðri hæð hússins eru sérstofur fyrir tónmennt, hönnun og smíði, textílmennt, myndlist og heimilisfræði. Á efri hæð er bókasafn, skrifstofur stjórnenda, skrifstofustjóri, hjúkrunarfræðingur, námsráðgjafi, viðtalsherbergi og tölvuver. Einnig er útikennslusvæði í nágrenni skólans, Narfakotsseyla. Tónlistarskólinn hefur til afnota tvær kennslustofur í Akurskóla. Lindin, sértækt námsúrræði hefur til afnota tvær stofur í skólanum og fimm önnur minni rými eru ætluð fyrir sérkennslu, þroskþjálfa og íslensku sem annað mál. 

Íþróttir eru kenndar í Íþróttamiðstöð Akurskóla. Þar er leikfimisalur og sundlaug. Starfsmenn íþróttahúss sjá um gæslu í búningsklefum og forstöðumaður íþróttamannvirkja er yfirmaður þeirra.

Aðalinngangur skólans er fyrir miðju skólahúsnæðinu. Frá bílastæðum við austurenda skólans er inngangur sem er ætlaður nemendum eldri bekkja á skólatíma og í vesturenda við Skólabraut er inngangur ætlaður nemendum yngri bekkja á skólatíma.

Slys á skólatíma

Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minniháttar slysum sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Skrifstofustjóri útbýr tilvísun í skólanum sem foreldrar taka með sér á HSS og fær þá nemandi viðeigandi meðferð á kostnað skólans. Slysaskráning er gerð í skólanum.

Mikilvægt er að skólinn hafi öll símanúmer skráð á Mentor sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt í skólanum.

Ef barn er með greindan alvarlegan sjúkdóm sem getur stefnt heilsu/lífi þess í bráða hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæsla og skrifstofa skólans viti af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, bráðaofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma.

Áfengis- og fíknivarnir

Áfengis- og fíknivarnir taka til almennra forvarna s.s. gagnvart tóbaki, nikótíni, áfengi, öðrum vímuefnum og annars konar fíkn. Akurskóli skal vera vímuefnalaus. Nemendum er óheimilt að nota tóbak, veip, nikótínvörur, áfengi eða önnur fíkniefni á skólatíma eða á viðburðum á vegum skólans. Skólinn fylgir lögum um tóbaksvarnir sem felur í sér að nemendum, starfsfólki, foreldrum og gestum er ekki heimilt að nota slík efni á skólasvæðinu.

Akurskóla ber skylda til að fræða nemendur og miðla upplýsingum varðandi fíkn og fíknivanda. Markmiðið er að draga úr fjölda þeirra sem ánetjast reykingum, vímuefnum eða leiðast út í fíknihegðun. Fræðslan fer fram með fjölbreyttum hætti og koma margir aðilar að henni, svo sem kennarar, námsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur og utanaðkomandi aðilar sem eru sérfræðingar á ákveðnum sviðum.

Leiðir að forvörnum

  • Styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust nemenda svo þeir geti tekið afstöðu gegn vímuefnum og staðið á móti neikvæðum félagslegum þrýstingi og geri sér grein fyrir áhrifum fyrirmynda í mótun lífsstíls.
  • Kennsla í lífsleikni með notkun námsgagna sem eru byggð á fræðilegum grunni og aldursmiðuð.
  • Leiðbeina nemendum um að temja sér jákvæð samskipti, umburðarlyndi, kurteisi og tillitssemi í samskiptum við aðra.
  • Fræða nemendur um skaðsemi tóbaks, nikótíns, áfengis og annarra fíkniefna og afleiðingar af neyslu þessara efna. Sömuleiðis að fræða um annars konar fíkn t.d. netfíkn.
  • Eiga öflugt samstarf við forráðamenn, fræðsluskrifstofu, félagsmiðstöðvar, heilsugæslu, félagsþjónustu og lögreglu um samræmdar aðgerðir gegn neyslu vímuefna.
  • Finna lausnir að úrræðum fyrir nemendur í áhættuhópum.
  • Námsráðgjafi starfar við Akurskóla. Nemendur geta leitað til hans og rætt við hann um sín persónulegu mál.
  • Hjúkrunarfræðingur hefur fasta viðveru í skólanum og sinnir meðal annars forvarnarstarfi. Forvarnarefni heilsugæslunnar, 6H, er notað við þá fræðslu.

Viðbrögð þegar upp kemur grunur eða vitneskja um notkun á tóbaki, nikótíni, áfengi eða öðrum vímuefnum

  • Öll notkun á tóbaki, nikótíni, áfengi eða öðrum vímuefnum er bönnuð í og við skólann samkvæmt skólareglum og er forráðamönnum gert viðvart ef nemandi verður uppvís að slíku broti.
  • Hafi starfsfólk skólans grun um að nemandi sé farinn að reykja eða nota tóbak/nikótín gerir kennari, námsráðgjafi eða stjórnandi forráðamönnum viðvart.
  • Ef grunur um neyslu áfengis eða fíkniefna nemanda vaknar hjá starfsfólki skólans er umsjónarkennara, námsráðgjafa eða stjórnanda tilkynnt um málið. Forráðamenn eru upplýstir og þeim bent á hvert þeir geti leitað eftir aðstoð.
  • Ef staðfestar upplýsingar liggja fyrir um áfengisneyslu nemanda eða neyslu annarra vímuefna skal námsráðgjafi eða skólastjórnandi boða forráðmenn til fundar.
  • Málinu er eftir atvikum vísað til nemendaverndarráðs.
  • Skólastjóri tilkynnir barnaverndaryfirvöldum skriflega um málið í samræmi við niðurstöðu nemendaverndarráðs.
  • Skóli og barnaverndaryfirvöld vinna saman að framgangi máls.

Góð ráð til forráðamanna

Þættir sem auka líkurnar á heilbrigðu og vímuefnalausu lífi ungmenna:

  • Gott sjálfstraust.
  • Sterk sjálfsmynd.
  • Sterk félagsleg tengsl og vinir.
  • Lögbundinn útivistartími virtur.
  • Að börn séu undir eftirliti þegar þau koma saman.
  • Að forráðamenn gefi sér tíma í samveru með barni sínu.
  • Þekkja vini barnsins og forráðamenn þeirra.
  • Hvetja barnið til hvers konar íþrótta- og tómstundaiðkunar.
  • Vera börnunum góð fyrirmynd.
  • Stuðningur, aðhald og skýrar reglur.
  • Jákvætt viðhorf til skóla og áhugi á námi barns.
  • Góð samvinna heimila og skóla.
  • Forráðmenn séu vel upplýstir um forvarnir og uppeldismál almennt.

 

Æskileg viðbrögð við vímuefnaneyslu barna

  • Sýndu rósemi og yfirvegun í samtali við barnið.
  • Aflaðu þér upplýsinga um vímuefni. Þær má t.d. finna á netinu eða hjá forvarna- og heilbrigðisaðilum.
  • Hafðu samband við aðra forráðamenn sem eru í svipaðri stöðu. Reynsla þeirra getur oft hjálpað mikið. Einnig er hægt að leita til heilsugæslu eða barnaverndar.
  • Æskilegt er að upplýsa skólann um notkun barns á tóbaki, áfengi og öðrum vímuefnum eða grun um slíkt.

 

Merki um fíknivanda

Líkamleg einkenni

  • Áhugaleysi á eigin útliti t.d. klæðnaði eða hreinlæti.
  • Minnkandi matarlyst.
  • Breyting á heilsufari.
  • Breyting á svefnvenjum.

 

Tilfinningaleg einkenni

  • Áhugaleysi, uppgjöf, vonleysi.
  • Kvíði, spenna, álag.
  • Þreyta, aukin svefnþörf.
  • Skyndilegir erfiðleikar í sambandi við einbeitingu/rökhugsun.
  • Sektarkennd, samviskubit.
  • Skapsveiflur, skapbrestir.
  • Einangrun eða minnkandi ánægja af félagslegum samskiptum.

 

Hegðunarleg einkenni

  • Dvínandi árangur í skóla.
  • Minnkandi áhugi á íþróttum og tómstundum.
  • Sjálfskaðandi hegðun.
  • Ögrandi lífsstíll sem birtist t.d. í klæðnaði.
  • Áhugaleysi um eigur sínar.
  • Andfélagsleg hegðun t.d. þjófnaðir eða árásir.

 

Hvert er hægt að leita þegar vandi steðjar að?

Í Akurskóla er starfandi námsráðgjafi sem bæði forráðamenn og nemendur geta leitað til varðandi nám og líðan. Námsráðgjafi getur hlustað, gefið góð ráð og leiðbeint með næstu skref. Sömuleiðis er starfandi hjúkrunarfræðingur í skólanum sem forráðamenn og nemendur geta leitað til.

 

Góðar vefsíður

www.foreldrahus.is

www.forvarnir.is

www.samanhopurinn.is

www.heilsuvera.is

www.spilavandi.is

www.abyrgspilun.is

www.saft.is

Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi

Nemendur, kennarar og starfsfólk skólans á hverjum tíma mynda skólasamfélag þar sem gagnkvæmt traust og virðing ríkir í samskiptum. Allir einstaklingar innan þessa samfélags eiga að búa við það öryggi að þeir verði hvorki fyrir kynferðislegu né kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Ef einstaklingur innan skólans telur sig verða fyrir slíku ber skólasamfélaginu að bregðast við með ábyrgum og skipulögðum hætti.

Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi og höfum því sett þessar verklagsreglur. Verklagsreglurnar eru lifandi skjal sem verður endurskoðað eftir þörfum.

Einstaklingur sem verður var við kynferðislega áreitni eða kynferðislegt ofbeldi er hvattur til þess að tilkynna það til náms- og starfsráðgjafa eða skólastjórnenda eftir því sem viðkomandi telur best.

Minnt er á tilkynningaskyldu þeirra sem afskipti hafa af börnum úr Barnaverndarlögum nr. 80/2002 17. gr.

Markmið

Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi í skólanum í kennslu, almennu starfi eða öðrum samskiptum sem eiga sér stað í skólastarfinu eða í tengslum við starfsemi skólans.

Markmið verkslagsreglna þessara er að tryggja að úrræði sé til staðar telji einstaklingur sig hafa orðið fyrir kynferðislegu og/eða kynbundinni áreitni eða kynferðislegu og/eða kynbundnu ofbeldi.

 

Skilgreiningar

Með kynbundinni áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.

Með kynferðislegri áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.

Með kynbundnu ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Með kynferðislegu ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Leiðir

Nemendur fá fræðslu um kynbundið ofbeldi og annað ofbeldi og þeim gert ljóst hvert þeir geti leitað eftir aðstoð komi slíkt mál upp, hvort heldur sem er af hálfu annarra nemenda eða starfsfólks.

Fræðsla til nemenda um kynþroska, kynlíf og siðferði í samskiptum kynjanna verði samkvæmt markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og skólanámskrá. Á hverju hausti er farið yfir það með starfsfólki skólans hvað getur falist í kynbundnu áreiti í samskiptum nemenda og starfsmanna. Nemendum verður einnig kynnt hvert þeir geti leitað.

 

Nemendur
Í framhaldi af tilkynningu um grun um brot af ofangreindu tagi fer eftirfarandi ferli í gang innan skólans:

  • Náms- og starfsráðgjafi og stjórnendur hittast og skipuleggja næstu skref.
  • Fræðslustjóri, grunnskólafulltrúi og yfirsálfræðingur Reykjanesbæjar eru upplýstir um málið.
  • Tilkynning og efni hennar eru borin undir barnaverndarnefnd.
  • Haft er samband við forráðamenn og fundur með þeim skipulagður.
  • Málið er skoðað og rætt við hlutaðeigandi.
  • Skólayfirvöld aðstoða málsaðila við að leita sér sérfræðiaðstoðar meðferðaraðila.
  • Ákveði málsaðilar að leita réttar síns munu skólastjórnendur og ráðgjafar skólans vera viðkomandi til aðstoðar.
  • Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar málsaðilum og eftir atvikum sendir skólinn tilkynningu til barnaverndarnefndar.
  • Eftirfylgni er höfð með málsaðilum eftir því sem þurfa þykir.
  • Þeim sem vinna að viðkvæmum málum innan skólans er skylt að gæta trúnaðar.

Ekki er aðhafst í máli nema sá sem verður fyrir áreitni eða kynferðislegu ofbeldi (og forráðamenn eftir því sem við á) sé samþykkur því. Sé hins vegar um brot á landslögum (broti sem er lýst í XXII. kafla almennra hegningarlaga) verður máli vísað til barnaverndarnefndar.

 

Viðbrögð

Ef aðilar máls eru í sama skóla eða eru nemendur í sama námsumhverfi (í sama bekk eða árgangi) þá ber að skoða hvort að gera þurfi ráðstafanir varðandi samskipti, samvinnu og samneyti málsaðila. Reynt skal að ná sáttum um vinnutilhögun meðan málið er í skoðun. Ekki er gert ráð fyrir að flytja til í námi einstakling sem hefur kvartað eða orðið fyrir broti, vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis, nema viðkomandi óski þess.

 

Tímarammi

Brýnt er að brugðist sé við málum sem þessar verklagsreglur fjalla um svo fljótt sem auðið er og að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að nemandi eða forráðamaður sendi inn formlega tilkynningu.

 

Viðurlög

Viðurlög við broti eru samkvæmt skólareglum. Gerandi verður látinn axla ábyrgð og getur verið fluttur til í annan skóla eða verið vikið úr skóla.

Jafnrétti og mannréttindi

Starfsfólk Akurskóla vill koma á og viðhalda jafnrétti kynja í stofnuninni. Ásamt því að stuðla að því að einstaklingar séu metnir á eigin forsendum, fái að njóta mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

Jafnréttisáætlun Akurskóla er gerð samkvæmt lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar segir meðal annars að fyrirtæki og stofnanir þar sem fleiri en 25 starfsmenn starfi að jafnaði á ársgrundvelli setji sér jafnréttisáætlun.

Í Aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um mikilvægi jafnrar stöðu karla og kvenna. Einnig eru ákvæði í jafnréttislögum að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem meðal annars er lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.

Jafnréttisáætlun Akurskóla miðast við bæði nemendur og starfsmenn. Aðaláherslan í skólastarfinu er að nemendur, kennarar og annað starfsfólk nái góðum árangri og að skólastarfið eflist og styrkist. Þannig ná allir að þroskast og sýna framfarir á sínum forsendum. Við leitumst við að efla gagnkvæmt traust, jákvæð og uppbyggileg samskipti sem og að skapa góðan starfsanda.

 

Nemendur

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um að markmið jafnréttismenntunar sé að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á sínum forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og réttlætis. Einnig er kveðið á um mikilvægi þess að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar.

Í viðburðum á vegum skólans skal hafa í huga að hlutfall kynja sé sem jafnast. Einnig skal hafa þetta í huga þegar valið er í nemendaráð og aðrar slíkar nefndir.

Lögð verður áhersla á að nemendur læri að þekkja og tjá tilfinningar sínar og annarra. Starfsfólk þarf að virða tilfinningar nemenda og gefa þeim færi á að tjá sig án þess að mismuna þeim.

Lögð verður áhersla á að kennsluaðferðir og námsgögn mismuni ekki nemendum svo allir nemendur hafi jafnan rétt til náms. Það þarf því að fara yfir námsgögn reglulega til að fullvíst sé að engin mismunun eigi sér stað. Einnig skal lögð áhersla á að vinna nemenda sé í anda jafnréttis, þeir rækti með sér samkennd og virðingu fyrir skoðunum og lífsgildum annarra. Þar skal starfsfólk vera fyrirmyndir og vinna saman að þessu markmiði.

 

Starfsfólk

Lögð er áhersla á að starfsauglýsingar séu í anda jafnréttislaga og auglýst starf standi opið öllum óháð kyni. Skólinn hefur þá stefnu að reyna eftir bestu getu að jafna hlutfall kvenna og karla á vinnustaðnum, en kvenmenn eru í miklum meirihluta í öllum stöðum, þar á meðal stjórnendur, kennarar, skólaliðar og annað starfsfólk. Í 20.gr.laga nr. 10/2008 um jafna stöðu kvenna og karla kemur fram að störf sem laus er til umsóknar skulu standa opin öllum óháð kyni.

Konur og karlar í Akurskóla njóta sömu launakjara, hafa jafnan möguleika á breytingum á vinnuaðstæðum s.s. launuðum aukastörfum, stöðuhækkunum og stöðubreytingum, ásamt því að eiga jafnan rétt að launaðri yfirvinnu í hvaða formi sem er. Starfsfólki eru tryggðir sömu möguleikar til endurmenntunar og starfsþróunar óháð kyni.

Lögð verður áhersla á að starfsfólk geti samræmt störf sín og skyldur gagnvart fjölskyldum sínum með vinnutíma, hlutastörfum eða með öðrum umsömdum hætti. Reykjanesbær er með sérstaka fjölskyldustefnu þar sem leitast er við að draga úr fundum á þeim tímum sem sinna þarf málefnum fjölskyldunnar, á kvöldin eða um helgar. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu kvenna og karla skulu atvinnurekendur gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Öllum starfsmönnum skal vera ljóst að kynferðisleg áreitni viðgengst ekki í stofnuninni. Mikilvægt er að starfsmönnum sé gerð grein fyrir að kynferðisleg áreitni hefur nokkrar birtingarmyndir svo sem látbragð, orðbragð eða gjörðir, en slíkt skulu starfsmenn aldrei þurfa að sætta sig við.

Framkvæmd og eftirfylgni

Í skólanum fylgja kennarar og stjórnendur áætluninni eftir. Áætlað er að mæla árangur áætlunarinnar með reglubundnu millibili, meðal annars í starfsmannasamtölum, viðhorfskönnunum meðal nemenda, starfsmanna og forráðamanna. Einnig eru spurningar í Skólapúlsinum, matstæki skólans, sem mæla tíðni þessara þátta. Niðurstöðurnar eru kynntar nemendum og starfsfólki skólans.

Umhverfisstefna

Í Akurskóla er starfað eftir umhverfisstefnu sem er ætlað að auka umhverfisvitund nemenda. Lögð er áhersla á að fara vel með takmarkaðar auðlindir jarðar og skila sem mestu aftur sem frá henni er komið í formi endurvinnslu. Markmiðið er að kenna nemendum að lifa í sátt við umhverfi sitt og taka ákvarðanir sem eru samfélaginu og náttúrunni til heilla.

Umhverfisstefna Akurskóla miðar að því að:

  • efla markvissa umhverfisvitund nemenda.
  • auka endurvinnslu.
  • græða umhverfið.
  • auka umhverfismennt með útikennslu.
  • sýna náttúru og manngerðu umhverfi virðingu.
  • nemendur verði meðvitaðir um umhverfisvænni ferðamáta.
  • sporna við matarsóun, hvetja til notkunar margnota drykkjar- og mataríláta.
  • efla fræðslu starfsfólks um umhverfismál og að innra umhverfisstarf verði aukið.
  • hvetja starfsfólk til vistvæns lífsstíls.

Áfallaáætlun

Áfallaáætlun er áætlun um viðeigandi viðbrögð þegar áföll verða, svo sem bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu eða sorgarviðbrögð. Áætlunin segir til um hver sinnir hvaða hlutverki, í hvaða röð og hvernig ber að bregðast við. Taka skal tillit til óska fjölskyldna þeirra sem hlut eiga að máli hverju sinni. 

Skólastjóri eða stangengill hans kallar saman áfallaráð og stýrir vinnu þess og skipulagi. 

 

Áfallaráð 

Í áfallaráði hvers grunnskóla sitja að öllu jöfnu eftirtaldir aðilar: 

  • Skólastjóri
  • Aðstoðarskólastjóri
  • Deildarstjórar
  • Námsráðgjafi

Þeim innan handar er stjórnendateymi fræðsluskrifstofu og prestur.

Hlutverk áfallaráðs 

Í megin atriðum skal hlutverk áfallaráðsins vera að gera vinnuáætlun svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við þegar áföll verða. Áfallaráð sér til þess að allt starfsfólk fái kynningu á því hvernig bregðast skuli við áföllum. Einnig þarf það að sjá til þess að starfsfólk sem veitir áfallahjálp fái stuðning og hjálp. 

Allir sem sitja í áfallaráði þurfa að vera upplýstir um hlutverk sitt í ráðinu. 

Áfallaráð skal funda þegar vitneskja berst um áfall og skólastjóri metur það mikilvægt að kalla ráðið saman. 

Í gæðahandbók Reykjanesbæjar eru gátlistar fyrir starfsfólk aðgengilegir til þess að styðjast við eftir því hvort um nemanda eða starfsfólk er að ræða. 

Við önnur áföll en tilgreind eru hér að framan svo sem kynferðislega misnotkun, ofbeldi, skilnað foreldra, atvinnuleysi til langs tíma, mannshvarf eða fangelsun náins ættingja, þurfa nemendur mikinn stuðning og skilning. Við aðstæður sem þessar er rétt að hafa samráð við foreldra eða aðra aðstandendur. Ef grunur vaknar um kynferðislega misnotkun eða annars konar ofbeldi ber ávallt að hafa samband við barnaverndarnefnd. Hægt er að óska nafnleyndar þegar tilkynnt er. Ef starfsfólk skólans lendir í erfiðleikum, svo sem skilnaði, slysi eða langvarandi veikindum innan fjölskyldu skal haft samráð við viðkomandi um hvort og hvernig starfsfólk skólans geti komið því til aðstoðar. 

Viðbrögð vegna hættuástands

Ef upp kemur hættuástand í eða við skólann er mikilvægt að láta vita hvar hættan er, með því að hringja í 112. Einnig skal hringja í skrifstofustjóra og/eða stjórnendur eða láta þá vita á annan hátt.

  1. Viðbrögð kalla á að starfsfólk og nemendur leggi sjálfstætt mat á hvað hægt er að gera og hvað ætti að gera fyrst, og hafa í huga það meginhlutverk að vernda og komast burt úr hættulegum aðstæðum.
  2. Starfsfólk og nemendur reyna eftir fremsta megni að koma sér burt úr aðstæðum. Starfsmaður setur sig í samband við lögreglu og stjórnendur skólans til að ákvarða hvort eigi að fara í rýmingu á byggingunni eða halda kyrru fyrir og læsa skólastofum og öðrum rýmum. Starfsfólk ætti að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort læsa skuli eða yfirgefa rýmið ef um lífshættulegar aðstæður er að ræða.

  3. Ef skotárás eða árás með eggvopni er yfirstandandi skal aðeins rýma ef staðsetning geranda er þekkt og útganga er auðveld og örugg. Ef staðsetning geranda eða aðstæður leyfa ekki rýmingu, þá skal læsa rýminu, slökkva ljós, fela sig og hafa hljótt.

  4. Þegar hættuástandi er yfirstaðið eða ef öruggt þykir þá skal meta hvort einhver er meiddur, alvarlega slasaður eða særður og gera viðeigandi ráðstafanir.

  5. Áfallaáætlun skólans virkjuð.
Hnetur

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

  • Reykjanesbær
  • Heimili og skóli
  • Foreldrafélag Akurskóla